12.02.2015

í gær gekk miðjumaðurinn knái Egill Jónsson til liðs við Víking Ólafsvík frá KR á lánssamning sem gildir út tímabilið 2015. Egill kom við sögu í 12 leikjum með KR-ingum í Pepsi-deildinni síðasta sumar auk þess að spila tvo leiki í bikarnum. Hann hefur leikið allan sinn meistaraflokksferil með Vesturbæjarliðinu að undanskildum níu leikjum sumarið 2012 þegar hann var lánaður til Selfyssinga.

Egill verður væntanlega í hóp Víkings sem hefur leik í Lengjubikarnum um helgina þegar liðið mætir Breiðablik og honum hlakkar til komandi verkefna með liðinu: „Ég hlakka mikið til að hitta strákana í liðinu og sjá karakterana sem ég mun fá að vinna með næstu mánuðina, innan sem utan vallar. Út frá því hefst svo vinnan og ég hef fulla trú á að í sameiningu geti náðst góður árangur í komandi verkefnum.“

Egill hittir fyrir tvo fyrrum félaga sína hjá KR þá Torfa Karl og Ingólf Sigurðsson, hjálpar ekki til að hafa nokkur kunnugleg andlit á nýjum stað? „Að sjálfsögðu hjálpar það. Þeir eru báðir virkilega góðir strákar sem og góðir vinir mínir. Ég var varla búinn að sleppa pennanum frá blaðinu þegar þeir hringdu í mig til að spjalla. Þeir tala báðir virkilega vel um liðið sem og starfsemina í kringum klúbbinn þannig að ég hlakka ekki síður til að kynnast öllum aðstandendum klúbbsins.“

Hvernig leggst sumardvölin á Ólafsvík í kappann? „Bara virkilega vel. Ég og Þorsteinn Már erum góðir vinir og maður heyrir fátt annað frá honum inn í KR klefanum en lof um Ólafsvíkina. Þannig að þó hans orð væru ekki nema að hálfu sönn ætti ég að eiga von á virkilega góðu.“

Hvers vegna Víkingur Ólafsvík en ekki eitthvað annað – var eitthvað sérstakt sem varð til þess að þú ákvaðst að koma vestur? „Eins og ég segi þá þekki ég til nokkurra stráka sem spila eða hafa spilað fyrir vestan og bera þeir liðinu allir vel söguna. Ég hafði áður heyrt af áhuga án þess að bregðast við en eftir að hafa spjallað við Ejub þá tel ég að í sameiningu geti náðst góður árangur.“

Þekkir þú eitthvað til fyrir vestan eða rennur þú bara blint í sjóinn? „Ég þekki nú ekki mikið til – Landsbyggðarstrákarnir í KR gera oft grín að mér fyrir að vera mikið borgarbarn en ég hugsa að ég muni í það minnsta gera heiðarlega tilraun til að afsanna þá kenningu með því að falla vel í hópinn fyrir vestan.“

Þú hefur áður farið á lán á ferlinum en hvaða væntingar hefur þú gagnvart þessum lánssamning? „Sú reynsla hjálpaði mér virkilega mikið og það var mikill lærdómur sem fólst í þeirri lánsdvöl, bæði að því leyti að fá nýtt umhverfi til að starfa í sem og að fá nýtt hlutverk innan liðs. Að því sögðu þá vonast ég svo sannarlega til að geta sýnt mitt rétta andlit á komandi tímabili og hjálpað liðinu að ná góðum árangri í því hlutverki sem ég fæ í hendurnar.“

 

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013