19.01.2015

Ingólfur Sigurðsson samdi í gær við Víking Ólafsvík til tveggja ára en samningur þess eðlis var undirritaður í gær eftir leik Víkings og Aftureldingar. Á síðustu leiktíð kom hann við sögu í 13 leikjum með Þrótti Reykjavík og KV í 1. deild, ásamt því að skora eitt mark fyrir hvort félag.

Ingólfur sem er uppalinn Valsari hefur þrátt fyrir ungan aldur komið víða við og meðal annars verið á mála hjá Hollenska liðinu Heerenven og Danska liðinu Lyngby. Þá á hann einnig að baki fjóra leiki með KR-ingum í efstu deild þar sem hann skoraði eitt mark.

 

Ingólfur lék í gær með liðinu í 3-1 sigurleik gegn Aftureldingu í fotboli net mótinu þar sem Steinar Már Ragnarsson kom Víkingum yfir og Ingólfur bætti við tveimur mörkum beint úr aukaspyrnum. Ingólfur var sáttur við eigin frammistöðu enda varla ekki hægt að biðja um betri byrjun. „Sennilega ekki –  Það var virkilega gaman að taka þátt í leiknum, þrátt fyrir að hann hafi þróast einkennilega og því enn skemmtilegra að vinna. Nýir liðsfélagar mínir auðvelduðu mér leikinn með höfðinglegum móttökum og hlakka ég mikið til að kynnast þeim betur – innan vallar sem utan.

En hvers vegna skildi hann hafa valið að koma til Ólafsvíkur? Ég tel að með því að ganga til liðs við Víking sé ég kominn á stað þar sem ég fæ tækifæri til þess að taka framförum sem leikmaður og líða vel – það vó þyngst í ákvörðun minni. Ég hef augljóslega átt samtöl við Ejub og líst mjög vel á hann. Þess utan hafa tveir af mínum bestu vinum, Arnar Sveinn og Guðmundur Steinn spilað með liðinu og þegar ég ræddi við þá um möguleg vistaskipti mín hvöttu þeir mig eindregið að ganga til liðs við félagið.“

Hvernig leggst sumarið í þig? „Ég hlakka mikið til sumarsins og vonandi mun okkur ganga sem best.“

Stjórn Víkingasveitarinnar byður Ingólf hjartanlega velkominn í hópinn og óskar honum velfarnaðar innan vallar sem utan.

 
 

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013