31.10.2014

Talað um að erfitt sé að stía þeim sundur á æfingum

Oft hafa knattspyrnumenn utan af landi vakið athygli í íslenska boltanum. Snæfellsnes hefur ósjaldan lagt til góða fótboltamenn og oftast hafa þeir komið úr Víkingi Ólafsvík. Víkingur hefur skilað nokkrum góðum strákum núna seinni árin, en reyndar koma þeir ekkert síður frá nágrannabæ Ólafsvíkur, Grundarfirði. Þaðan koma tvíburabræðurnir Þorsteinn Már og Steinar Már Ragnarssynir. Það er Þorsteinn sem er þekktara nafn í boltanum, enda hætti Steinar í nokkur ár að iðka íþróttina og fór á sjóinn. Eftir frábært tímabil Víkings 2011, þar sem liðið vann 2. deildina með yfirburðum og komst alla leið í undanúrslit Bikarkeppninnar, fór Þorsteinn til stórveldisins í Vesturbænum, KR. Núna um mitt sumar var Þorsteinn Már svo lánaðar til síns gamla félags Víkings þannig að í sumar spiluðu tvíburabræðurnir í fyrsta skipti saman í meistaraflokki. „Það var frábært að fá Steina bróður í liðið. Mér líður vel að hafa hann þarna nálægan, enda held ég að öll lið vilji hafa vinnuhest eins og hann,“ segir Steinar Már. Þorsteinn segir að það sé einmitt Steinar sjálfur sem sé vinnuþjarkurinn í liðinu. „Það er hans starf og hann er að sópa upp eftir okkur hina. Það er gaman að segja frá því að útlendingarnir í liðinu kalla hann „Machine“ eða vélmennið. Hann stoppar aldrei er sívinnandi á vellinum,“ segir Þorsteinn Már.

 

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013