30.10.2014

Torfi Karl Ólafsson gekk í gær til liðs við Víking Ólafsvík frá KR en samningur hans við Vesturbæjarliðið rann út fyrr í þessum mánuði.

Torfi þekkir hvern krók og kima í Ólafsvík eftir að hafa verið á láni hjá félaginu sumarið 2012. Hann segir það hafa haft lykiláhrif á ákvörðunina um að skipta aftur til Víkings. „Ég spilaði náttúrulega með liðinu fyrir tveimur árum þegar við fórum upp í Pepsi-deildina eins og flestir stuðningsmenn muna sennilega vel eftir. Ég var mjög ánægður með allt í kringum liðið, hvort sem um er að ræða þjálfara, leikmenn, liðsstjórn eða stuðningsmenn. Ég veit því að hverju ég geng svo það hafði mikil áhrif á ákvörðun mína um að koma aftur til Ólafsvíkur.

Höfðu skiptin langan aðdraganda? „Nei í rauninni ekki – ég var samningslaus þann 16. október og í kjölfarið höfðu stjórnarmenn Víkings samband við mig. Nokkrum dögum seinna er þetta  klappað og klárt.

Torfi sleit krossband í hné í byrjun árs og lék þ.a.l. ekkert með KR-ingum í Pepsi-deildinni á þessu tímabili. Batinn gengur vel að hans sögn en hann er farinn að skokka rólega og sparka í bolta. En hvenær gerir Torfi ráð fyrir að vera kominn aftur af stað að fullu? „Ég fór í aðgerð í febrúar og batanum miðar nokkuð vel áfram að mínu mati. Þetta er búið að gerast hægt og rólega síðustu mánuði og það styttist vonandi að ég nái fullum styrk. Ég stefni að því að ná sem mestu af undirbúningstímabilinu og vil helst vera byrjaður að fá einhverjar mínútur í janúar. Ég þarf samt sem áður að hugsa vel um hnéð og passa að fara ekki fram úr mér. Fyrst og fremst vil ég vera í 100% standi næsta sumar en auðvitað vill maður byrja að spila sem fyrst. Þetta verður því allt að koma í ljós en ég er bjartsýnn á að geta byrjað að spila fljótlega eftir áramót.

Víkingasveitin býður Torfa Karl hjartanlega velkominn og óskar honum velfarnaðar á vellinum.

 

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013