Kvennalið Víkings sigraði um helgina lið Hauka með þremur mörkum gegn tveimur í lokaleik liðsins á Íslandsmótinu 2014. Sigurinn gerði það að verkum að liðið endaði í fjórða sæti riðilsins með 21 stig sem er fimmtán stigum meira frá árinu á undan. Mörk Víkings á laugardaginn gerðu Yekaterina Gokhman, Freydís Bjarnadóttir og María Rún Eyþórsdóttir.

 

 Lokhóf liðsins var einnig haldið um helgina þar sem Zaneta Wyne var valinn besti leikmaðurinn, Yekaterina Gokhman og María Rún voru markahæstar og verðlaun fyrir mestu framfarir fékk Irma Gunnþórsdóttir.
 

Zeneta Wyne valinn besti leikmaður liðsins á lokahófinu (Mynd: Helgi Bjargar)

Í tilefni af besta árangri kvennaliðs Víkings setti Vikingurol.is sig í samband við þjálfara liðsins, Björn Sólmar Valgeirsson og farið var yfir gengi liðsins í sumar.

Fyrst af öllu til hamingju með árangurinn – Fimm sætum ofar á stigatöflunni, 15 stigum meira og munurinn á markatölunni er 49 mörk frá því í fyrra – Hvernig skýrir þú bættan árangur hjá liðinu í sumar? „Vá! Það eru ansi margar ástæður fyrir því. Fyrir það fyrsta þá lærðum við rosalega mikið á síðasta tímabili og vorum því reynslunni ríkari í sumar. Liðið fékk einnig þrjár leikmenn frá Bandaríkjunum sem styrktu liðið mikið og hjálpuðu heimastelpunum að færa leik sinn á hærra plan. Síðan er það einfaldlega þannig að stelpurnar voru ákveðnar að standa sig betur en sumarið 2013 og voru þ.a.l. tilbúnar að leggja mikið á sig sem og þær gerðu“.

Liðið er eins og þú segir reynslunni ríkara þar sem stelpurnar lærðu mikið á tímabilinu í fyrra en hagaðir þú undirbúning liðsins eitthvað öðruvísi í ár? „Nei í rauninni ekki – Við settum okkur markmið um að stíga uppá næsta plan sem þýddi enn meiri skuldbindingu og fagmennsku… í rauninni verða meira pró ef ég mætti sletta“.

Samanborið við sumarið í fyrra – hvar liggur helsti munurinn? „Ég myndi segja  að varnarleikur liðsins, allt frá fremsta manni til þess aftasta“.

Lagðir þú þá sérstaka áherslu á hann í vetur? „Ég myndi ekki segja að við höfum lagt sérstaka áherslu á hann, heldur unnum við meira með taktík og færslur á öllu liðinu. Eftir að við fengum Jeannette í markið vann hún mikið með fjórar öftustu og kom með nýjar víddir inn í varnaleikinn sem sem hjálpaði okkur mikið“.

Byrjun liðsins á mótinu hlýtur að hafa haft góð áhrif þar sem liðið náði að krækja í 7 stig í fyrstu fjórum leikjunum? „Jú að sjálfsögðu! Þetta gerði það að verkum að stelpurnar fóru að hafa trú á sér og á hvora aðra. Það var reyndist mjög mikilvægt því sama hvað bjátaði á þá stóðu þær alltaf saman sem ein liðsheild.“

Liðið endar fyrir ofan öll liðin sem það lék líka við síðasta sumar (Tindastól, BÍ/Bolungarvík og Hauka) er það ekki merki um að þið hafið verið að vinna vel í liðinu? „Jú – það má segja það – Við erum með nánast sama hóp og í fyrra að undanskildum Zanetu og Yekaterinu. Aðalmálið var bara að láta stelpurnar sjá að með metnaði og vilja þá kæmist liðið á hærra plan. Þær gerðu það að mínu mati og vita núna að það gerist ekkert af sjálfum sér“.

Jeannette kemur inn í ár sem spilandi aðstoðarþjálfari – Hver er hennar þáttur í stóra samhenginu? „Hennar þáttur er nokkuð stór. Fyrir það fyrsta þá er hún frábær karakter og gefur rosalega mikið af sér til stelpnanna. Sem leikmaður er hún líklega einn af bestu markmönnum á sem spila á Íslandi. Ofan á það býr hún yfir miklum leiðtogahæfileikum sem færði liðinu ákveðna ró inn á vellinum. Sem þjálfari kom hún með nýja og skemmtilega vinkla sem var gott að vinna með. Jeannette er fagmaður fram í fingurgómana og við unnum við vel saman“.

Það er ekki bara Jeannette sem var þér innan handar – þú ert vafinn fagmönnum í kringum þig ekki satt? „Við erum gríðarlega heppin að vera komin með gott teymi kringum liðið því það er svo sannarlega ekki sjálfgefið (líkt og við sáum svo bersýnilega hjá nokkrum liðum í sumar). Einar (Hobbiti) hefur hjálpað liðinu og mér gríðarlega mikið, líklega mun meira en fólk gerir sér grein fyrir. Hann tekur að sér í mörg verkefni sem sjást ekki alltaf á yfirborðinu og ofan á það vinnur hann með Jeannette og sér um að hita hana upp fyrir leiki. Það gerir mér kleift að einblína á það sem sem snýr beint að leiknum“.

Björn heldur áfram: „Harpa Finns kom líka inní þetta hjá okkur í vetur og sá um styrktarþjálfun fyrir stelpurnar. Hún hefur einnig gegnt starfi sjúkraþjálfara þar sem hún nuddar stelpurnar fyrir og eftir leiki. Starf þeirra beggja (Einars og Hörpu) í þágu liðsins er talsvert og það sem meira er þá er það allt unnið í  sjálfboðavinnu og því algjörlega ómetanlegt. Svo hef ég alltaf geta leitað ráða  hjá Jónasi Gest og Ejub. Ég get ekki lokið þessari upptalningu án þess að minnast á Stjána og Tótu sem sjá um að búningarnir okkar séu klárir á leikdegi og stelpurnar fái að borða eftir heimaleiki sem er frábært“.

Lungað af leikjum sumarsins er spilað á sömu leikmönnunum ólíkt því sem var upp á teningnum í fyrra. Auk þess fá Kristín Olsen og Selma Marín dýrmætar mínútur ekki satt? „Staðan er náttúrlega sú að við erum ekki með stóran hóp og spilum þ.a.l. mikið á sömu stelpunum sem getur á köflum verið erfitt þegar það er spilað þétt. En að sama skapi getur það verið gott því við erum mjög samheldinn hópur. Kristín og Selma fengu báðar mínútur í sumar sem hjálpar þeim vonandi þegar fram í sækir og kennir þeim líka að vera hluti af hópnum – sjá út á hvað þetta gengur o.s.frv. Síðan erum við með Birtu sem er ungur og upprennandi markvörður sem stóð sig frábærlega í vetrarmótunum þegar Jeannette var að jafna sig af meiðslum. Birta er búin að læra mikið á að vinna með Jeannette í sumar og á eftir að bæta sig enn meira“.

Sem þjálfari yngriflokka á svæðinu sérðu fyrir þér að fleiri ungar stelpur séu að fara banka á dyrnar á komandi undirbúningstímabili? „Já það eru nokkrar og vona jafnframt að sem flestar stelpur stefni á það að spila fyrir hönd meistaraflokk Víkings í framtíðinni”.

Ef þú ættir að gera upp sumarið í nokkrum setningum hvernig myndi það hljóma? „Sumarið gekk mjög vel, við byrjuðum á að koma einhverjum á óvart með góðum sigrum og slatta af stigum. Lentum í smá lægð um miðbik mótsins en enduðum á frábærum nótum með því að enda í 4 sæti sem líklega enginn bjóst við. Það sem við tökum með okkur á næsta ár er hversu sterkar við erum orðnar þegar á móti blæs og við stöndum alltaf saman, sama hvað bjátar á. Vilji og hjarta  (stelpurnar skilja hvað ég við) er það sem hefur einkennt þetta sumar“.

„Ég vil að endingu fyrir hönd liðsins þakka öllum sem hjálpuðu okkur í sumar á einn eða annan hátt. Ennfremur þeim sem komu á leikina því að finna og heyra stuðning frá stuðningsmönnunum okkar gefur liðinu alltaf auka kraft. Einnig vil ég skora á Ásdísi og Höddu að taka næsta tímabil með okkur“.

Vikingurol.is þakkar Birni kærlega fyrir spjallið og óskar honum, liðinu ásamt öllum þeim sem komu að því hjartanlega til hamingju með árangurinn í sumar.

 
 
 

 

 

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013