Víkingur Ólafsvík.

Félagið er stofnað árið 1928 í gamla félagsheimilinu við Gilið sem nú er búið að rífa. Til er bók á bókasafninu og fyrsta fundargerð félagsins. Þessar tvær bækur fundust fyrir 25 árum síðan uppá lofti í rafstöðvarhúsinu inní Dal. Mér sem þá var formaður félagsins voru afhentar þessar bækur og síðan lét ég Svein Elinbergsson í bæjarstjórninni hafa þær vegna þess að þá var seinna bindi af sögu Ólafsvíkur í vinnslu. Gísli Gunnlaugsson sagnfræðingur sem ritaði fyrsta bindið af sögu Ólafsvíkur fékk bækurnar í hendurnar að mér skilst og á meðan hann var að rita seinna bindið féll hann frá fyrir aldur fram og hafði ég miklar áhyggjur af bókunum. Seinna kom í ljós að þær höfðu skilað sér á bókasafnið í Ólafsvík og eru þar. Á þessum upphafsárum Víkings var kveðskapur vinsæll og í aðra bókina sem flakkaði á milli félagsmanna var mikið skrifað og þá aðallega frumsamdar vísur. Hin bókin var fundargerðarbók og er skráð í hana allir fundir framundir 1950 að mig minnir. Síðan koma fleiri fleiri ár sem ekkert er skráð í fundargerðarbókina og allt í einu árið 1960 og eitthvað er eitthvað fært til bókar. 


Víkingur Ó hóf knattspyrnuiðkun í kringum 1960 þegar Gylfi Scheving flytur til Ólafsvíkur og hóar mönnum saman til æfinga. Fyrstu leikirnir voru vináttuleikir við nágrannabæjarfélög. Víkingur Ó var og er hluti af HSH og það var árið 1967 sem liðið hóf keppni í Íslandsmóti í samkrulli með hinum ungmennafélögunum á Snæfellsnesi. Keppt var undir nafni HSH og tókst liðinu að komast í næst efstu deild eitt keppnistímabilið. Það er ekki fyrr en árið 1970 sem Víkingur Ó tekur í fyrsta skipti þátt í Íslandsmóti undir sínu nafni. Ekki voru mörg lið í riðlinum þetta fyrsta ár, einungis tvö, Grundarfjörður og UMSB. Víkingur Ó tapaði báðum leikjum sínum fyrir Borgfirðingunum og Grundarfjörður gaf báða sína leiki. Semsagt liðið spilaði tvo leiki á sínu fyrsta Íslandsmóti. Næst var tekið þátt árið 1972 og síðan þá hefur liðið verið með stanslaust allar götur síðan. Reyndar í 3 ár undir nafni HSH. Það voru árin 2000- 2002. Torfi Magnússon var fyrsti þjálfari liðsins sem ekki var heimamaður. Hann kom frá Val. Torfi er starfandi læknir í dag. Hann þjálfaði liðið í tvö ár, 1972 og 1973. Bæði þessi ár vann liðið sinn riðil og komst í úrslitakeppnina í 3.deildinni sem haldin var bæði árin á Melavellinum sáluga. Ekki tókst liðinu að komast upp í B deildina í tveimur fyrstu tilraununum. Árið 1974 var Gylfi Þ. Gíslason frá Selfossi ráðinn þjálfari liðsins, sem skráði sig í þriðja sinn til leiks í 3.deildinni og í fyrsta skipti til leiks í bikarkeppni KSÍ. Liðinu gekk alveg ljómandi vel þetta ár og vann sinn riðil. Jafnhliða spilaði liðið í bikarnum og mætti í fyrsta leik B deildarliðinu ÍBÍ á Ólafsvíkurvelli. Liðið kom öllum á óvart og lagði Ísfirðingana 4-2. Næsti bikarleikur var gegn engum örðum en Skagamönnum sem voru með firnasterkt lið og þetta ár urðu þeir Íslandsmeistarar. Leikurinn fór fram í Ólafsvík fyrir framan kjaftfullan völl að áhorfendum sem létu vel í sér heyra. Víkingarnir komu Skagamönnum verulega á óvart með miklum sóknarleik. Georg Kirby þjálfari Skagamanna var ekki par hrifinn af frammstöðu sinna manna og öskraði aftur og aftur inná völlinn á ensku, "terryful, terryful". Skaginn náði forystu í leiknum en Birgir Þorsteinsson jafnaði leikinn um miðjan seinni hálfleik með skoti rétt fyrir utan vítateig. Þegar áhorfendur biðu eftir að Víkingur Ó skoraði sigurmarkið tókst Skagamönnum að ná skyndisókn og úr henni skoruðu þeir mark og stuttu seinna kom annað. Leiknum lauk síðan með sigri ÍA 1-3. Um haustið mætti Víkingur Ó þriðja árið í röð í úrslitakeppnina í 3.deildinni. Nú var fyrsti leikurinn spilaður gegn Reyni S. á Kaplakrika. Leikurinn endaði 1-1. Síðan færðu liðin sig yfir á Melavöllinn og þar hófst mikil sigurganga hjá Víking Ó sem endaði með því að liðið sigraði Reyni Á. 3-0 í úrslitaleik. Þar með var liðið komið í  B deildina á sínu 3ja ári. 

Það var mikill heiður fyrir Víking Ó að tryggja sér sæti í 2.deildinni sem samsvarar 1.deildinni í dag (2011). Í deildinni voru 8 lið. Veturinn 1975 var mikið að gera í bænum, mikið fiskirí og önnur vinna. Liðið var ekki komið með þjálfara fyrr en í maí,  þegar Ásgeir Elíasson sem var þekktur landsliðsmaður með Fram réð sig sem þjálfari hjá Víking Ó. Sagan segir að Gylfi Scheving hafi frétt það að Ásgeir hafi staðið í íbúðarkaupum og vantað pening uppí kaupin og Gylfi hafi séð sér leik á borði boðist til að borga honum fyrirfram þjálfaralaunin ef hann kæmi vestur og þjálfaði liðið. Ásgeir tók tilboðinu fegins hendi og vakti þessi þjálfararáðning mikla athygli innan knattspyrnuhreyfingarinnar á sínum tíma. 
En það var erfitt fyrir Ásgeir að taka við liðinu svona rétt fyrir mót. Liðið var í litlu úthaldi. En menn uppskera ávallt því sem þeir sá. Þannig var það með Víkings Ó liðið. Liðið kom illa undirbúið til móts og árangurinn var eftir því. Æfingar hófust seint og illa á meðan önnur lið í deildinni hófu undirbúninginn mun fyrr. Samt var Víkings Ó liðið vel mannað með marga fína fótboltamenn. Fyrsti leikurinn var á útivelli gegn Selfossi og verður að segjast eins og er að Vikingur Ó sá aldrei til sólar í þeim leik, enda tapaðist leikurinn illa 1-5 með marki Atla Alexsanderssonar. Næsti leikur var á heimavelli gegn Ármanni og var fyrri hálfleikurinn í góðu lagi og höfðum við yfir í hálfleik 2-1 með mörkum frá Guðmundi Gunnarssyni og Sigurði Rúnari Elíassyni. Mark Rúnars var skrautlegt. Hann böðlaðist með boltann alla leið frá miðju vallarins og vann hverja tæklinguna á fætur annarri og endaði með boltann að lokun fyrir innan marklínuna. Þetta mark sem kom á 45.mín fyrri hálfleiks vakti mikla kátínu hjá áhorfendum. En úthaldið var minna í seinni hálfleik og náðu Ármenningarnir að koma boltanum fjórum sinnum í netið hjá okkur. Einn leikmaður Ármanns sem ég kynntist mörgum árum seinna sagði mér það að fjögur af mörkum Ármanns hafi komið eftir hornspyrnur. Þriðji leikurinn var á útivelli gegn sterku liði Breiðabliks. Þetta var fyrsti leikurinn á Kópavogsvelli og það var mikið um húllumhæ fyrir leik þar sem þetta var vígsluleikur vallarins. Sjónvarpið var mætt á staðinn en Víkingsliðið nánast. Mikil meiðsli hrjáðu liðið í þessum leik og var liðið svipur hjá sjón enda slátruðu Blikarnir okkur strax í fyrri hálfleik með sjö mörkum og ellefu áður en yfir lauk. Gylfi Scheving fyrirliði, Ásgeir Elíasson og Hilmar Gunnarsson voru ekki með sem dæmi. Þetta var og er stærsta tap Víkings Ó í deildarkeppni ásamt tapi 0-11 tapi gegn Aftureldingu árið 1999. Eftir þessa þrjá fyrstu leiki fór úthald leikmanna að lagast og úrslitin líka. Í fjórða leik tapaði liðið 0-1 fyrir Haukum á útivelli þar sem mark Haukanna kom alveg í lokin.  

 

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013